Fréttir

H.G. mótið og Sjávarútvegsmótaröðin

H.G. mótið í golfi var haldið um helgina, sem markaði lok Sjávarútvegsmótaraðarinnar í golfi þetta sumarið. H.G. mótið var tveggja daga mót, haldið laugardag og sunnudag, 18 holur hvern dag. Keppt var bæði í höggleik og punktakeppni með forgjöf.

Veðrið lék við kylfinga en á þriðja tug keppanda mættu til leiks. Eftir hefðbundna keppni í karlaflokki stóðu voru þeir félagar Flosi Valgeir Jakobsson G.B. og Ásgeir Óli Kristjánsson G.Í jafnir á samtals 157 höggum. Skera þurfti úr milli þeirra á bráðabana og slegið var upp á sjöundu flöt.  Ásgeir setti niður fugl en Flosi fór á pari og Ásgeir því sigurvegari H.G. mótsins í höggleik. Jón Arnar Sigurðsson varð í þriðja sætil á 158 höggum.

Í kvennaflokki sigraði Bjarney Guðmundsdóttir á 177 höggum, Sólveig Pálsdóttir í öðru sæti á 182 höggum og Björg Sæmundsdóttir í þriðja sæti á 185 höggum.

Í punktakeppni sigraði Þorgils Gunnarsson á samtals 76 punktum, Bjarney Guðmundsdóttir í öðru sæti á 73 punktum og Jóhann Birkir Helgason í þriðja sæti á 70 punktum.  Nálgast má heildarúrslit í mótinu hér.

Það var hins vegar bolvíkingurinn Flosi Valgeir Jakobsson sem sigraði Sjávarútvegsmótaröðina og Ásgeir Óli Kristjánsson var í öðru sæti.

Í kvennaflokki sigraði Bjarney Guðmundsdóttir GÍ og Björg Sæmundsdóttir GP varð í öðru sæti.

Í punktakeppni sigraði  Þorgils Gunnarsson GBB með yfirburðum og  Guðmundur Albertsson GBB varð í öðru sæti.

Heildarúrslit í mótaröðinnin má nálgast hér á heimasíðu GÍ.

Mótaröðin er samstarfsvettvangur sjávarútvegsfyrirtækja á Vestfjörðum og er keppt á Patreksfirði, Bíldudal, Bolungarvík og Tungudal. Fyrirtækin sem standa á bak við mótaröðina eru: Arctic Fish, Arnarlax, Hampiðjan, Jakob Valgeir, Fiskvinnslan Oddi, Íslandsaga og Klofningur.

Mótaröðin er gott dæmi um samstarf Vestfirðinga og óhætt að kalla það krúndjásn golfíþróttarinnar á Vestfjörðum. Í tilefni lokamótsins í mótaröðinni var slegið upp veislu í Golfskálanum í Tungudal þar sem verðlauna afhending fór fram, golfarar glöddust saman og borðuðu góðan mat í boði Hótels Ísafjarðar.

Fram undan er síðsumar-starf golfklúbba á Vestfjörðum. Um næstu helgi verður Nettómótið haldið á Syðridalsvelli í Bolungarvík og Tungudalsvelli við Skutulsfjörð. Nettómótið er haldið á tveimur níu holu völlum sem eru um margt ólíkir, en hafa sína sérstöðu. Syðridalsvöllur er svo kallaður link völlur eða strandvöllur en Tungudalsvöllur skógarvöllur. Keppnisfyrirkomulagið er þannig að fyrst er leikið er í Syðridal og síðan heldur keppni áfram í Tungudal.

Gunnar Þórðarson

Formaður G.Í.


Deila