Fréttir

Bændaglíman

Laugardaginn 18. september var Bændaglíman haldin á Tungudalsvelli. Bændaglíman boðar lok sumarstarfs Golfklúbbs Ísafjarðar þar sem tvö lið keppa í Texas Scrample, betri bolta og betra skori samanlagt. Tvö lið kepptu sín á milli níu holur, lið formans klúbbsins og lið formans mótanefndar. Liðstjórar voru Gunnar Þórðarson og Guðni Ólafur Guðnason, sem völdu mannskap í hvort lið en alls voru 35 keppendur.

Það var einmuna blíða og fallegur eftirmiðdagur þegar liðin tókust á, sól og logn og 12° hiti. Mikil stemming var í mótinu og hart barist í hverjum ráshóp, en startað var út á öllum teigum samtímis.

Þegar tvö lið voru eftir var staðan jöfn og því ógnþrungin spenna þegar beðið var eftir þeim með niðurstöðu. Þegar þessi lið voru komin í hús var ljóst að úrslitin enduðu með jafntefli og því þurfti að fara í bráðabana. Gunnar og Guðni fóru því niður á sjöunda teig og fylgdist hópurinn með formannaslagnum. Guðni sló fyrst og átti meistarahögg inn á miðja flötina. Bolti Gunnar lenti hægra megin við flötina og því má segja að úrslit væru fengin strax. En leikurinn var kláraður, Guðni var með öruggt par en Gunnar vippaði of langt og endaði með skramba.

Guðni var vel að sigri kominn, hafði spilað sjálfur eins og tígur í mótinu og hafði hvatt sína menn til dáða fyrir leikinn. Við val í lið hafði Gunnar reynt að velja keppendur sem ættaðir væru úr Sléttuhreppi en Guðni tíndi í sitt lið körfuboltamenn.

Það var glatt á hjalla í skálanum að loknu móti þar sem boðið var upp á lambasteik frá Hótel Ísafirði. Það er óhætt að segja að gleðin hafi ríkt og Ísfiskir golfarar farið kátir heim að hátíðinni lokinni; tilbúnir í að klára haustverkin í Tungudal en síðan tekur vetrastarfið við í Sundagolfi þar sem klúbburinn hefur komið upp golfhermi af fullkominni gerð.


Deila