Fréttir

Sjávarútvegsmótaröðin 2022

Sjávarútvegsmótaröðin hefur verið krúndjásn golfmóta G.Í., enda samstarfsverkefni við aðra golfklúbba á Vestfjörðum. Í ár bætist við öflugur liðsauki þar sem Hampiðjan mun halda upphafsmót raðarinnar, á Tungudalsvelli 18. júni. Síðan tekur Oddi á móti keppendum á golfvellinum á Vestur Botni við Patreksfjörð laugardaginn 25. júni. Arnarlax verður gestgjafi á Litlueyrarvelli daginn eftir, sunnudaginn 26. júní.

Íslandssaga býður til leiks á Tungudalsvelli 9. júli og Klofningur á Syðridalsvelli í Bolungarvík daginn eftir, 10. júlí. Jakob Valgeir verður gestgjafi golfmótsins á Syðridalsvelli í Bolungarvík laugardaginn 23. Júlí og Arctic Fish á Tungdalsvelli sunnudaginn 24. júní.

Það er síðan Hraðfrystihúsið Gunnvör sem rekur lestina með tveggja daga móti laugardag og sunnudag, 28. og 29. ágúst.

Það eru þeir félagar Óðinn Gestsson og Guðbjartur Flosason sem hafa veg og vanda af mótaröðinni sem er kostuð af sjávarútvegs- og fiskeldisfyrirtækjum á Vestfjörðum, og nú hefur þjónustu- og framleiðslufyrirtækið Hampiðjan bæst í hópinn, enda mikilvægur þátttakandi í sjávarútveg og fiskeldi í fjórðungnum. Keppendur þurfa að taka þátt í a.m.k. fjórum mótum til að geta sigrað í mótaröðinni, en sigurvegari er stigahæsti kylfingur mótaraðarinnar. Verðlaun eru í hverju móti fyrir sig og sérstaklega vegleg fyrir sigur í mótaröðinni allri.

Í ár verður flokkum fækkað og ekki er lengur um að ræða eldri kylfinga sérstaklega í höggleiknum, settur er á opinn flokkur þar sem veitt verða verðlaun fyrir 10 efstu sætin. Keppt verður í Karla, Kvenna og unglingaflokki án forgjafar, verðlaun fyrir 3 efstu sætin. Síðan er opni flokkurinn þar sem að punktar telja til árangurs.

Kylfingar eru hvattir til að taka þátt í Sjávarútvegsmótaröðinni og um leið styrkja Vestfirska golfklúbba sem njóta fjárhagslega góðs af keppninni, ásamt því að vera félögum sínum til skemmtunar við krefjandi keppni mörg fyrirtækin bjóða keppendum upp á hressingu á mótsdegi og er bara að vona að íslensk sumar spili með í sumar.


Deila